151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir margvíslegar vangaveltur um frumvarpið. Ég ætlaði að spyrja hv. þingmann ákveðinnar spurningar en svarið við henni kom kannski fram, að því marki sem það getur komið fram, í lok ræðu hennar þegar hún sagðist ekki vera búin að gera það upp við sig hver afstaða hennar væri til frumvarpsins. Hún fjallaði mest um afstöðu annarra til frumvarpsins í máli sínu, miklu frekar en sína eigin. Það væri út af fyrir sig ágætt ef hv. þingmaður gæti staðfest að ég hafi skilið hana rétt, þ.e. að hún hafi ekki enn tekið afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir. Ég ætla hins vegar, til þess að vera sanngjarn, að segja að þetta er auðvitað ekki einhlítt og það frumvarp sem hér liggur fyrir, með þeim breytingartillögum sem liggja fyrir, er málamiðlun. Það er enginn vafi á því og enginn er að fara í felur með það að þetta er málamiðlun ólíkra sjónarmiða. Það er alveg ljóst og þannig er það að sjálfsögðu afar oft með lagasetningu hér í þinginu að til þess að vinna málum framgang þurfa menn að reyna að slá af eigin stefnu til að koma einhverri niðurstöðu í mál. Valkosturinn er sá að gera ekki neitt eða að gera eitthvað og ná þá saman um það hvað hægt er að gera sem hægt er að ná samstöðu um.

Vegna eins atriðis í ræðu hv. þingmanns vildi ég geta þess, og bara til að undirstrika það eins og ég svo sem gerði á fundi í allsherjar- og menntamálanefnd í morgun, að þetta frumvarp sem slíkt er auðvitað ekki upphaf og endir á viðleitni stjórnvalda eða fólks á hinum pólitíska vettvangi til að búa einkareknum fjölmiðlum hagstætt starfsumhverfi. Það hefur auðvitað verið vísað til ákveðins nefndarstarfs þar sem verið er að skoða mikilvæga þætti í því sambandi. Ég vildi bara að það kæmi fram hér við þessa umræðu að ég tel mjög (Forseti hringir.) mikilvægt að sú nefnd sem er að vinna á vegum menntamálaráðherra skili niðurstöðu í þeim efnum.