151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að spyrja þessarar spurningar. Ég beið einmitt eftir því að fá þá spurningu og fagna því að fá tækifæri til að svara henni. Ég er alls ekkert ánægður með þetta, eins og svo margt sem er að gerast hér í þinginu. Ef farið væri að mínum vilja einum þá væri nú fátt afgreitt í þinginu, held ég, en hins vegar sætti ég mig mjög vel við þá málamiðlun sem hér liggur á borðinu og styð hana. Ég styð þessa málamiðlun en ég dreg enga dul á að ég hefði viljað breyta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla á miklu fleiri sviðum. Ég tel að við höfum enn forsendur til að gera það hvað sem líður starfshópi menntamálaráðherra, sem ég tek fram að ég bind talsverðar vonir við. Frásagnir nefndarmanna í þeim starfshópi gefa mér til kynna að þar sé raunveruleg hreyfing á málum og að þar sé alvöruvinna í gangi. Ég bind vonir við að þetta mál verði ekki það eina sem fram kemur, hvenær svo sem það verður afgreitt. Ég vona að öll þessi vinna muni skila einhverjum áþreifanlegum árangri á fleiri sviðum en bara í formi þeirra styrkja sem auðvitað skipta máli fyrir þau fjölmiðlafyrirtæki sem um ræðir. En hins vegar er það ekki nándar nærri nóg til þess að gera starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla bærilegt og ég myndi kannski að einhverju leyti taka undir það með hv. þingmanni að aðrar aðgerðir gætu verið miklu betri og miklu áhrifameiri í þágu starfsumhverfis einkarekinna fjölmiðla en styrkir af þessu tagi sem í eðli sínu eru alltaf takmarkaðir.