151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður gladdist mjög yfir því að ég skyldi spyrja hann um afstöðu til málsins þannig að ég þarf kannski að fara að venja mig á að gera það oftar. Ég þakka honum svörin, hann segist ekki ánægður með þetta mál. Það er ég ekki heldur. Ég tel eins og hv. þingmaður að með því að undanskilja aðra þætti, jafnvel meginþætti málsins, stöndum við eftir með lausn sem er að mínu viti ekki sú besta. Þá myndi ég kannski vilja spyrja hann að því í framhaldi af þessum orðaskiptum okkar tveggja þingmanna sem erum ekki sérlega ánægð með þetta mál: Telur hv. þingmaður þessa tilteknu leið, þá leið að fara inn í fyrirtæki á einkamarkaði með beinum styrkjum, vænlega eða eðlilega í þessum efnum? Hefur hann einhverjar áhyggjur af því að þessi aðferðafræði við að styðja við einkarekna fjölmiðla á markaði kunni mögulega að veikja sjálfstæði fjölmiðla með því að þeir séu beinlínis orðnir háðir ríkinu, kannski segi ég það ekki alveg en eru á framlögum frá ríkinu? Eða er þessi leið til þess fallin að gera hið gagnstæða, sem er auðvitað markmiðið, að styrkja sjálfstæði þeirra og verja það?