151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:16]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er að mínu mati miklu eðlilegra samhengi hlutanna að þau lög sem sett voru um skipulag haf- og strandsvæða taki tillit til laxeldisins þar sem það var hreinlega ástæðan fyrir því að verið var að setja þau, þ.e. vaxandi laxeldi hringinn í kringum landið. Ég tel ekki að þetta þurfi að hafa í för með sér neinar tafir á þeirri skipulagsvinnu, alls ekki. Ég held raunar að þetta muni miklu frekar greiða fyrir þeirri skipulagsvinnu vegna þess að þetta getur eytt ágreiningi á milli sveitarfélaga sem skipa svokallað svæðisráð og aðila sem eru þar. Í dag er staðan þannig í þessum málum að ráðherra málaflokksins ræður því í raun og veru hvort óskað er eftir að unnið verði mat fyrir viðkomandi hafsvæði. Þannig hefur Hafrannsóknastofnun til að mynda samkvæmt mínum upplýsingum lokið vinnu við burðarþolsmat í Eyjafirði og áhættumatið er mjög lítil vinna ef það er ekki búið líka. En ráðherrann óskar ekki eftir birtingu þess þannig að það er ekki lagt fram. Við þessar aðstæður eiga menn að hefja vinnu við skipulag á hafsvæðinu í Eyjafirði, mörg sveitarfélög saman með aðkomu ríkisstofnana. Menn hafa ekki upplýsingar um hvað liggur undir. Það getur miklu frekar tafið ferlið að mínu mati. Það er óeðlilegt að sveitarfélög fái erindi frá ráðherra þar sem óskað er eftir skoðun þeirra á því hvort loka eigi ákveðnum hafsvæðum en á sama tíma eru ekki birtar þær vísindalegu upplýsingar (Forseti hringir.) sem grundvallaðar eru í lögum um fiskeldi á Íslandi.