151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni svarið. Margir hafa verið tvístígandi í málefnum fiskeldisins alveg frá þeim tíma er við sáum það sem hefur blasað við síðan og verið er að leiðrétta hér að hluta, þ.e. mistök sem voru gerð við heildarlagasetninguna 2019.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um í seinna andsvari, með þeim fyrirvara að maður eigi eftir að skoða þetta heildstætt, er: Sér hv. þingmaður fyrir sér að á grundvelli þessa verði landsþekjandi skoðun á hverju svæði fyrir sig, að hvert svæði verði burðarþolsmetið, í rauninni burt séð frá því hvort áform séu um fiskeldi á því tiltekna svæði, með það fyrir augum að þingmönnum og þeim sem forma regluverkið um þennan iðnað sé ljóst hvaða möguleikar og takmarkanir eru á hverju svæði?

Spurningin er í rauninni: Sér hv. þm. Jón Gunnarsson fyrir sér að mat það sem hér lagt er til verði unnið á fleiri svæðum en til að mynda þessi lagabreyting tekur á núna eins og frumvarpið liggur fyrir og þau svæði sem hafa verið metin hingað til gefa tilefni til að ætla? Og af því að ég á nokkrar sekúndur eftir: Þekkir þingmaðurinn hug nefndarmanna Sjálfstæðisflokksins í atvinnuveganefnd til þessarar nálgunar?