151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er rétt hjá þingmanninum að sá sem hér stendur er þingmaður í Norðvesturkjördæmi og hefur fylgst vel með fiskeldismálum á Vestfjörðum. Það er mjög ánægjulegt að sjá þann mikla uppgang sem hefur verið þar. Þar koma gríðarleg verðmæti á land en jafnframt fylgja því alls konar — ég hefði viljað kalla þau lúxusvandamál en þau eru kannski enginn lúxus, þ.e. alls konar samgöngumál, húsnæðismál, raforkumál, heilbrigðismál og annað slíkt. En það er mikill uppgangur á Vestfjörðum. Ég man eftir því þegar talað var um það fyrir átta, níu eða tíu árum að það ætti bara eftir að slökkva ljósin á Bíldudal. Nú er Bíldudalur á kafi í vinnu og mikill uppgangur þar eins og víðar þarna á fjörðunum.

En ég er með eina spurningu, af því að við erum að fjalla um mál sem eru ekki beint tengd þessari breytingartillögu sem mér líst í stórum dráttum mjög vel á, í sambandi við kvíaeldi í sjó. Nú eru Norðmenn byrjaðir að gera tilraunir með það — eða kannski er það komið af stað, ég er ekki alveg með það á hreinu. Það var eitt af því sem við vorum frædd um í nefndinni þegar við fórum til Noregs í undirbúningsvinnu að frumvarpinu sem varð að lögum 2019, að þetta væri framtíðin, sjókvíaeldi úti í hafi. Það væri í formi einhvers konar olíuborpalla, stórra rampa og væri á djúpu vatni þar sem er miklu minni hættu á mengun. (Forseti hringir.) Er það eitthvað sem við gætum séð innan tíðar við Íslandsstrendur?