151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fiskeldi.

265. mál
[16:33]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Hér er á dagskrá frumvarp um breytingu á lögum um fiskeldi, um vannýttan lífmassa í fiskeldi. Það er hér til 3. umr. og ég ákvað að koma upp til þess að lýsa yfir vonbrigðum mínum. Ég hélt að við værum að ná breiðri sátt í nefndinni, að það yrði þverpólitísk sátt um lúkningu á leyfismálum sem fóru ekki vel við lok afgreiðslu frumvarpsins sem var samþykkt á vorþingi 2019. Málið fór inn í nefnd milli 2. og 3. umr. og sá sem hér stendur og hv. þm. Ólafur Ísleifsson boðuðu breytingartillögu um að þau fyrirtæki sem lentu á milli skips og bryggju við úthlutun leyfa eftir að lögin urðu til 2019 fengju leiðréttingu, eins og ég hef orðað það. Því hefur í raun og veru verið hafnað, leyfi ég mér að segja. Við, þrír þingmenn í minni hluta í nefndinni, sendum spurningalista með breytingartillögunni inn til ráðuneytisins 15. maí. Í gær barst svar og síðan er málið sett á dagskrá í dag. Það verður að segjast eins og er að svör ráðuneytisins eru ekki til þess að gera menn bjartsýna á að þetta verði leiðrétt.

Ég hef farið yfir það í ræðu á fyrri stigum um málið að ég lýsti yfir ánægju minni með vinnuna í nefndinni — í tvö ár, frá 2017 og fram til 2019 — að frumvarpinu sem varð að lögum 2019 um fiskeldi. Eins og ég hef nefnt fórum við meira að segja til Noregs og kynntum okkur fiskeldismál þar. Nefndin var samstiga í því að þetta yrði unnið faglega með miklum þéttleika og með ráðgjöf færustu sérfræðinga og allt það. Síðan er það á síðustu metrum þeirrar vinnu að gerð er breyting á frumvarpinu þannig að það er einhvers konar uppboðsleið, þ.e. skurðarpunkti gömlu og nýju laganna er breytt. Þá fór titringur í gang og við sáum það í mínum flokki að þetta gæti ekki gengið. Þá mæltum við fyrir breytingartillögu sem ég og hv. þm. Bergþór Ólason stóðum að. Sú tillaga var felld og frumvarpið varð að lögum. Það fór þannig að rótgróið fyrirtæki féll milli skips og bryggju og fékk sama sem engu úthlutað. Ég sagði það þá og sagði það aftur í nefndinni að þetta hefði komið það seint fram að menn sáu ekki fyrir hvaða afleiðingar það myndi hafa og að það væri alveg skýrt í mínum huga að það hafi alls ekki verið vilji nokkurs einasta manns að þetta færi svona. Þetta væri mannanna verk, því væri það líka mannanna verk að laga þetta og ég spurði hvort við gætum staðið saman að því. Satt best að segja var ég farinn að trúa því fyrir nokkrum dögum eða vikum síðan — eða hvað það var, þremur vikum sennilega — þegar við fengum fagmenn til að vinna að breytingartillögu með útskýringum, nefndaráliti, að við gætum farið í þessa vinnu og lagfært þessi mál. En það var einhvers konar ótti við að það hefði fordæmisgildi af því að verið er að hreyfa við lögum sem samþykkt voru 2019, að það myndi breyta einhverju fyrir önnur fyrirtæki sem aðrir segja manni síðan að sé óþarfa ótti. Ég get ekki fullyrt hvort það myndi breyta einhverju en ég hefði viljað sjá þennan vilja sem ég hélt að væri kominn til að fara í vinnu við að athuga að breyta og bara hreinlega framkvæma breytinguna þannig að þessi mistök yrðu löguð. Það var ekki vilji nokkurs að þetta færi svona.

Ég verð enn og aftur að lýsa yfir miklum vonbrigðum með að málið sé komið á þennan stað, til 3. umr. Næst fer það þá í atkvæðagreiðslu og við sem viljum laga þetta mál fáum ekki rönd við reist. Í sjálfu sér er þetta ágætisfrumvarp. Það er bragarbót á því sem var gert þá en það er samt ekki nóg til að laga það sem miður fór. Ég reikna með að við í mínum flokki greiðum atkvæði með frumvarpinu en förum ekki sátt frá borði hvað það varðar.

Hæstv. forseti. Ég vildi bara láta það koma fram í þessari ræðu að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með að ekki næðist pólitísk samstaða um að klára málið. Ég trúði því í upphafi vinnunnar að við værum að fara að landa stóru máli í þverpólitískri sátt.