151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

tekjuskattur.

3. mál
[16:53]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir framsöguna. Eins og þingmaðurinn nefndi þá stend ég að nefndarálitinu. Mig langaði aðeins að nefna og kannski eiga orðastað við þingmanninn um þessa breytingu sem við gerum á sektarákvæðinu sem ég er sammála. Þarna er í rauninni verið að stíga aftur á sama stað og var við fyrri framlagningu.

Það sem mig langar að ræða við þingmanninn er að hér er náttúrlega verið að byrja að feta þennan veg og því kannski að mörgu leyti eðlilegt að sektarheimildir séu ekki ákvarðaðar mjög háar í fyrsta gangi. En gæti hv. þingmaður hugsað sér að eðlilegt væri að þessi ákvæði væru endurskoðuð eða að menn væru svolítið með það á radarnum að hafa slíkt í huga komi til þess, sem við skulum vona að verði ekki, að ákvæðinu þurfi að beita í miklum mæli og það reynist ekki hafa þann fælingarmátt eða þann hvatningarmátt, eftir atvikum, til að bregðast rétt við sem frumvarpinu er ætlað?