151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

tekjuskattur.

3. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst ánægjulegt að nefndin skyldi standa einhuga að afgreiðslu málsins þó að tveir hv. þingmenn geri ákveðinn fyrirvara. Mér fannst ánægjulegt að menn skyldu þá ná saman um að gæta ákveðinnar hófsemdar í upphafi þegar sektarfjárhæð er ákveðin með lögum. Það er einmitt þess vegna sem er vert að undirstrika það sem nefndin segir í nefndarálitinu, þ.e. að við lögfestingu sektarheimilda sé nauðsynlegt að gæta hófsemdar. En nefndin bendir einnig á, svo að ég vitni orðrétt í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„[Nefndin] bendir einnig á að nauðsynlegt er að endurskoða fjárhæðir með hliðsjón af fenginni reynslu.“

Þannig að stutta svarið er já, hv. þingmaður. Ég hygg að nauðsynlegt sé í ljósi fenginnar reynslu að endurskoða þessar fjárhæðir. Aftur ítreka ég hins vegar að nauðsynlegt er að hófsemdar verði gætt við þá endurskoðun, hæstv. forseti.