151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[17:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Frumvarpið er á þskj. 1431 og er mál nr. 791. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 25. og 27. gr. laganna en bæði ákvæðin voru lögfest á árinu 2016 og fjalla um þjóðhagsvarúðartæki. Nánar tiltekið fjalla þau um heimildir Seðlabankans til að setja reglur sem ætlað er að stuðla að stöðugleika á fasteignamarkaði. Í 25. gr. er fjallað um heimild bankans til að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána og 27. gr. fjallar um heimild hans til að setja reglur sem takmarka heildarfjárhæð fasteignaláns eða greiðslubyrði þess í hlutfalli við tekjur neytanda.

Sú heimild sem felst í 25. gr. var nýtt á árinu 2017, þegar Fjármálaeftirlitið birti reglur um hámark veðsetningarhlutfalls vegna fasteignalána til neytenda, en heimildin í 27. gr. hefur ekki verið nýtt til þessa.

Í frumvarpinu er lagt til að við 25. gr. bætist heimild til að kveða á um undanþágur frá hámarki veðsetningarhlutfalls í reglunum vegna lánveitinga sem nema ákveðnum hundraðshluta af heildarfjárhæð veittra lána á tilteknu tímabili. Þannig verði lánastofnunum veitt meira svigrúm en nú er og gert kleift að veita ákveðinn hluta lána á tilteknu tímabili, sem kveðið er á um í reglunum, umfram hámarkið.

Meginbreytingartillaga frumvarpsins er við 27. gr. laganna en hún felur í sér að greinin verði gerð skýrari þannig að tilgreind verði ákveðin mörk fyrir þær takmarkanir sem um ræðir. Þannig er lagt til að í stað þess að heimildin sé opin og án viðmiða verði hún takmörkuð á þann hátt að hámark heildarfjárhæðar fasteignaláns geti verið frá fimmföldum til nífaldra árlegra ráðstöfunartekna neytanda og að hámark greiðslubyrðar fasteignaláns geti numið 25–50% af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum neytanda. Með ráðstöfunartekjum er átt við væntar viðvarandi tekjur að frádregnum beinum sköttum og gjöldum.

Þá er lagt til að heimilt verði að kveða á um undanþágur frá hámarki heildarfjárhæðar fasteignaláns og hámarki greiðslubyrðar fasteignaláns vegna lánveitinga sem nema ákveðnum hundraðshluta af heildarfjárhæð veittra lána á tilteknu tímabili, líkt og lagt er til að bætist við 25. gr.

Loks er lagt til að samningar um fasteignalán sem veitt eru í tengslum við hlutdeildarlán verði undanþegnir ákvæðum laganna um veðsetningarhlutföll og takmörkun í hlutfalli við tekjur neytanda. Er þetta gert þar sem löggjafinn hefur þegar ákveðið í lögum um húsnæðismál að meðalafborganir fasteignalána sem veitt eru í tengslum við hlutdeildarlán megi ekki nema meira en 40% ráðstöfunartekna umsækjanda. Því er ekki sama þörf að á að hafa til staðar þann möguleika að takmarka í reglum veðsetningarhlutfall þeirra líkt og er með önnur fasteignalán til neytenda.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að heimildir til að birta reglur sem geta haft jafn víðtæk áhrif á almenning og þær sem hér eru til umfjöllunar séu vel afmarkaðar í lögum. Því er ekki til að dreifa nú. Að því leytinu til má segja að í frumvarpinu felist ákveðin þrenging á heimildum til að beita þessu inngripi. En líka má velta upp í því sambandi hvort löggjafinn hafi mögulega veitt of mikið svigrúm til ákvörðunar um þessi efni. Ég verð þó að láta það fylgja að ég tel að svigrúmið sem skilið er eftir í frumvarpinu sé áfram mjög rúmt og hægt að meta innan þessa svigrúms þörf eftir aðstæðum hverju sinni þar sem ekki er hægt að útiloka að þurfi að beita úrræðinu þótt hér sé ekki verið að boða beitingu þess þó að frumvarpið sé lagt fram, ég vil taka það sérstaklega fram. Það er ekki gert á þeirri forsendu að þörf sé á að beita úrræðinu. En hér er kominn skýr lagarammi um heimildir Seðlabankans til að setja reglur sem takmarka heildarfjárhæð fasteignalána og greiðslubyrði þeirra. Það er líka hægt að segja að með þessari breytingu aukist gagnsæi um möguleg ytri mörk lánveitinga fasteignalána hvað varðar veðsetningarhlutföll og greiðslubyrði.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir helstu atriði frumvarpsins og vil láta það fylgja hér í blálokin að nú mælist verðbólga á Íslandi einkum vegna húsnæðisliðar og að því leytinu til erum við á dálítið viðkvæmum tímum á húsnæðismarkaði. Ég ítreka að ég kem ekki með þetta frumvarp hingað inn vegna þess að ég telji sérstaka þörf á að beita úrræðinu en þó er ekki hægt að útiloka, eins og maður tekur eftir að sumir greiningaraðilar hafa skrifað um, að Seðlabankinn sjái þörf fyrir að beita einhverjum af þeim varúðartækjum, þjóðhagsvarúðarúrræðum, sem honum standa til boða. Ef til þess kæmi að reyna myndi á þetta tiltekna atriði sem fjallað er um í þessu frumvarpi þá myndi ég telja að það væri mjög til bóta að þingið hefði afgreitt málið og gert lagarammann skýrari.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, mælist ég til þess að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.