151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fasteignalán til neytenda.

791. mál
[17:18]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að nota tækifærið til að reyna að grennslast fyrir um ýmislegt í þessu máli. Mig vantar svolítið upp á að skilja hvers vegna það kemur svona rosalega seint fram, hvers vegna liggur á því núna, en líka hvaða áhrif það á að hafa. Það hljómar eins og verið sé að opna á ákveðnar heimildir sem kann að eiga sér eðlilegar skýringar. En ég átta mig ekki í fljótu bragði á því hverjir njóta góðs af þessu og/eða hverjir eru takmarkaðir af þessu. Ég veit að þetta er ekki mjög nákvæm spurning en vandinn er að þegar ég les um tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar er fullt af orðum en það er rosalega lítið samhengi. Það kann að vera að þetta sé allt saman mjög eðlilegt en eins og staðan er í dag er upplifun mín sú að þetta komi inn á undanþágu frá venjulegum þingsköpum alveg í blálok þingsins. Það er verið að fara fram á að málið sé keyrt í gegn á miklum hraða. Svoleiðis veldur mér alltaf áhyggjum. Ef eðlilegar skýringar eru á þessu væri gott að vita: Hvernig varð þetta til? Hvenær varð þetta til? Hvaða samráð var haft? Hvaða áhrif á þetta að hafa? Vegna þess að ég átta mig ekki almennilega á því eins og er.