151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

aðför Samherja að stofnunum samfélagsins.

[13:07]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Síðustu daga hafa birst frekar ónotalegar fréttir af hópi sem kallar sig skæruliðadeild og starfar innan stórs sjávarútvegsfyrirtækis og er til í að beita alls kyns meðulum til að koma höggi á fólk sem þau telja andstæðinga sína. Hópurinn ræðir m.a. sín á milli að beita sér í kosningum í stéttarfélagi, veltir því sama fyrir sér varðandi prófkjör einstakra stjórnmálaflokka, kortleggur ummæli blaðamanna, listamanna, embættis- og stjórnmálamanna og beitir sér gegn þeim. Ég geri ráð fyrir því að forsætisráðherra hafi fylgst með þessu og fyllst óhug eins og margir landsmenn. Við skulum hafa það á hreinu að hér er ekki um að ræða einangrað tilvik endilega heldur fyrirbæri sem er nýtt og aðferð sem er nýtt víðar í grófri sérhagsmunagæslu. Þetta verður hins vegar að kenna okkur að það þarf að bregðast við þróun sem skekkir atvinnulífið, bjagar umræðuna, veikir stjórnmálin og grefur undan lýðræðinu og við þurfum að bregðast við áður en það verður of seint. Það verður hins vegar ekki gert með því að veikja Samkeppniseftirlitið, leggja niður skattrannsóknarstjóra eða draga kerfisbundið tennurnar úr eftirlitsstofnunum. Það verður gert með því að styrkja þær. Það verður gert með vandaðri lagasetningu og það verður gert með nýrri stjórnarskrá sem tryggir rétt fjöldans.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Telur hún að lýðræðinu stafi ógn af vinnubrögðum af þessu tagi? Telur hún að þau geti veikt eftirlitsstofnanir og fjölmiðla og leitt til þess að sérhagsmunir verði settir ofar almannahagsmunum? Og síðast en ekki síst: Er hún tilbúin að styðja breytingar á auðlindaákvæði sínu í ljósi þessara frétta þannig að tímabinding allrar nýtingarsamninga verði áskilin?