151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

aðför Samherja að stofnunum samfélagsins.

[13:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nú þykir mér hv. þingmaður falla í sömu gryfju og sá aðili sem nú rekur miklar skoðanaauglýsingar gegn þessu frumvarpi og heldur þar því fram að ég vilji afhenda stórútgerðinni nýtingarheimildir varanlega. Hv. þingmaður veit vel að það er ekki það sem stendur í því ákvæði sem er hér til umfjöllunar, heldur er einmitt verið að undirstrika að þessar heimildir verði ekki afhentar með varanlegum hætti. Það þýðir að þær eru annaðhvort tímabundnar eða uppsegjanlegar. Á það sama að gilda um allar nýtingarheimildir óháð gerð auðlindar? Það er kannski stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir þegar um er að ræða til að mynda landgæði sem yfirleitt eru afhent til einnar aldar í senn en þó ekki varanlega. Þetta er það sem við höfum auðvitað rætt mikið.

Mér finnst mikilvægt að við getum rætt þetta með málefnalegum hætti og ekki leggjast í það að halda því fram að ég sé hér að ganga erinda stórfyrirtækis í sjávarútvegi því að það er ekki sanngjarnt og ekki rétt og ekki satt, þó að einhverjir aðilar kjósi að birta slíkt í skoðanaauglýsingum. (Forseti hringir.) Ég minni á að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggjast auðvitað alfarið gegn frumvarpinu og væntanlega er einhver ástæða fyrir því.