151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breytingar á fiskveiðilöggjöf.

[13:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í Kjarnanum segir réttilega í dag, með leyfi forseta:

„Hér hefur verið brotinn samfélagssáttmáli. Þeir sem hann brutu sækja vald sitt til kerfislegs vanda sem stjórnmálamenn þurfa að hafa þor og dug til að taka á.“

Mér heyrist, eftir orðaskiptin hér á undan, að forsætisráðherra vilji einmitt gera ekki það, heldur skýlir hún sér á bak við það að auðlindaákvæðið sem hún hefur lagt fram skili einhverju, þegar það segir beinlínis í greinargerð með frumvarpinu að það breyti engu um núverandi ástand. Halda menn virkilega að það væri ekki löngu búið að sigla flotanum í land ef SFS og hagsmunasamtökin væru á móti þessu? Hvað er þetta? Hvern er verið að blekkja?

Við í Viðreisn höfum ítrekað lagt fram frumvarp um tímabundnar heimildir í sjávarútvegi, til að stoppa þennan varanleika í sjávarútvegi. En hvað hafa stjórnarflokkarnir gert ítrekað í tengslum við makrílinn eða önnur frumvörp? Ítrekað hafa þeir hafnað eða svæft málin. Hvað með frumvarp Viðreisnar um gegnsæi í sjávarútvegi? Það fæst ekki á dagskrá, það má ekki ræða það. Hvert málið á fætur öðru styður nákvæmlega það sem segir í greinargerðinni með frumvarpinu til stjórnarskipunarlaga: Þetta frumvarp á ekki að breyta neinu. Þó að fallega orðið þjóðareign sé þarna inni er enn og aftur verið að veita þjóðinni falska öryggiskennd. Það er ekki verið að ganga alla leið.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað þarf til að ríkisstjórnin vakni þannig að almannahagsmunir verði raunverulega teknir framar sérhagsmunum?