151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breytingar á fiskveiðilöggjöf.

[13:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum alveg sammála um að okkur finnst mikilvægt að stjórnarskráin verði ekki lengur þögul um auðlindir og ég held að um margt séum við hv. þingmaður sammála um hvað þarf að koma fram í slíku ákvæði, að við gerum ákveðnar kröfur um það hvernig nýtingu skuli háttað, að þjóðareignin sé undirstrikuð, að við séum að horfa til þess að þetta sé þar af leiðandi ekki afhent neinum til varanlegrar eignar. Ég hef líka sagt það með skýrum hætti, bæði hér í þessum ræðustól og líka á fundum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að nú er það nefndarinnar að fara mjög vel yfir þau sjónarmið sem koma fram og hvort hún telji að þau sjónarmið megi undirstrika með skýrari hætti í þessu ákvæði. Þar stendur ekkert á mér, því að mér fyndist mikilvægast af öllu að Alþingi gæti náð samstöðu um ákvæðið sem undirstrikar þjóðareignina. Ég held að það sé stóra verkefnið.