151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

kjör lífeyrisþega og skerðingar.

[13:29]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirna. Nú verð ég að játa að ég hef ekki kynnt mér skýrsluna sem hann vitnar til í hörgul, en ég vil þó draga það fram að þegar við ræðum um almannatryggingar þá erum við annars vegar með ellilífeyrisþega og hins vegar örorkulífeyrisþega og það eru ekki nákvæmlega sambærileg kerfi vegna þess að þeim hluta almannatryggingakerfisins sem varðar eldri borgara var breytt hér með löggjöf árið 2016. Í kjölfarið má segja að það kerfi hafi orðið töluvert einfaldara og var verulega dregið úr skerðingum í þeim hluta kerfisins, sérstaklega gagnvart tekjulægstu ellilífeyrisþegunum, og króna á móti krónu skerðingar voru aflagðar. Svo ég rifji það upp kostaði þessi breyting á annan tug milljarða, kannski í kringum 15–16 milljarða, eitthvað svoleiðis. Hún gagnaðist fyrst og fremst tekjulægri lífeyrisþegum ellilífeyris og konum sem eiga frekar lítil réttindi í lífeyrissjóði. Þegar kemur að eldri borgurum hækkuðum við svo frítekjumark vegna atvinnutekna strax í upphafi þessa kjörtímabils í 100.000 kr. og síðan var sveigjanleiki aukinn til að samræma atvinnuþátttöku lífeyristöku með lögum um hálfan lífeyri, fyrir utan félagslegan viðbótarstuðning.

Eins og kunnugt er náðist hins vegar ekki sátt í hópi öryrkja varðandi þessar breytingar á almannatryggingakerfinu, eins og við hv. þingmaður höfum rætt. Hv. þingmaður spyr: Eru skerðingarnar of miklar? Ég held að við höfum sýnt það í verki að okkur hefur þótt þær vera of miklar þó að höfum við verið að leggja ýmislegt af mörkum til að draga úr skerðingum. Við drógum úr krónu á móti krónu skerðingunni vegna sérstöku framfærsluuppbótarinnar og við drógum líka úr skerðingum milli bótaflokka í örorkulífeyriskerfinu til þess að koma betur til móts við tekjulægsta hópinn í hópi örorkulífeyrisþega. En hins vegar er ég þeirrar skoðunar að það þurfi ákveðna heildarendurskoðun á uppbyggingu framfærslukerfisins hjá örorkulífeyrisþegum (Forseti hringir.) þannig að við getum betur stutt við þau, sérstaklega þau sem eru eingöngu með framfærslu almannatrygginga, örorkulífeyri. Við þurfum (Forseti hringir.) að tryggja betur stöðu þess hóps og draga vissulega úr skerðingum. En það kallar á þessa heildarsýn á stöðu örorkulífeyrisþega.