151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

flugvallarstæði í Hvassahrauni.

[13:41]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni og ég stend 100% við það að Reykjavíkurflugvöllur verður þar sem hann er í óbreyttri mynd og möguleikar hans á að þjóna því sem hann á að þjóna verða ekki skertir þangað til annar nýr og betri staður fyrir flugvöll finnst, ef hann finnst. (Gripið fram í.)Ef ekki, þá er Reykjavíkurflugvöllur áfram á sama stað og undir það samkomulag skrifaði borgarstjóri. Ég hef líka skrifað undir það samkomulag og hyggst standa við það. Og ólíkt hv. þingmanni treysti ég mér til að bíða í nokkra mánuði eftir nýju áhættumati frá helstu sérfræðingum okkar áður en ég tek ákvörðun sem mér virðist vera augljós. En mér finnst skynsamlegra að fá endahnút á málið með áhættumati og styðjast við nýjustu vísindi og okkar færustu sérfræðinga, ólíkt þingmanninum sem telur að best sé að stjórna með því að segja eitt í dag og annað á morgun.