151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Staða fjölmiðla er spegill á stöðu lýðræðis í hverju samfélagi og öflugt lýðræði er eitt sterkasta vopnið gegn spillingu í hverju samfélagi. Hver er þá staða fjölmiðla á Íslandi? Það bárust fréttir af því nýlega enn eitt árið að við föllum niður lista samtakanna Blaðamenn án landamæra yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum og erum orðin miklir eftirbátar annarra Norðurlanda, samfélaga sem við berum okkur gjarnan saman við og það með réttu. Í umsögninni er sérstaklega tiltekið að samskipti fjölmiðla og stjórnmálafólks hafi farið versnandi hin síðustu ár og er líka minnst á Samherjaskjölin og viðbrögð Samherja við þeirri umfjöllun fjölmiðla á Íslandi. Á þessum tíma, sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af varðandi stöðu fjölmiðla á Íslandi, berast fréttir af ítrekuðum og grófum árásum skæruliðadeildar útgerðarrisans Samherja á fjölmiðlamenn og aðra gagnrýnendur, árásum á fólk sem ber ábyrgð á því að tryggja gegnsæi og upplýsingaflæði í umræðunni fyrir íslenskt samfélag.

Ein kveikja þessarar heiftar er umræðan um Samherjamálið. Í kjölfar þess að það komst í hámæli haustið 2019 setti ríkisstjórnin saman aðgerðalista sem leiða átti til aukins trausts á íslensku atvinnulífi. Hvað er að frétta af þeim aðgerðalista? Við bíðum nefnilega enn, m.a. eftir úttekt á viðskiptaháttum íslenskra útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum um aflaheimildir í þróunarlöndum. Það skiptir máli að fá svör. Það skiptir máli að við fáum vopn í hernaði við skæruliða útgerðarisanna.

Við í Viðreisn höfum lagt til breytingar til að leggja hönd á plóg í þessari baráttu. Við höfum lagt til að stærstu útgerðirnar verði skráðar á verðbréfamarkað svo fjármálin verði opinber, eignaraðildin verði dreifðari og að afmarkað verði með skýrari hætti hámark eignar tengdra aðila í aflahlutdeild. Við höfum líka beðið núna í ríflega fimm mánuði eftir því að (Forseti hringir.) sjávarútvegsráðherra skili Alþingi umbeðinni skýrslu um eignaraðild þessara útgerðarisa í íslensku atvinnulífi óháð sjávarútvegi. Hvar liggja spor þessara risa, (Forseti hringir.) sem byggja auðlegð sína á þjóðarauðlind Íslendinga? Hvar liggja spor þeirra í íslensku samfélagi, í atvinnulífi okkar? (Forseti hringir.)

Stærsta breytingin (Forseti hringir.) sem við þurfum síðan að ná í gegn eru breytingar á auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörkin.)