151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Í yfirlýsingu Íslandsdeildar Transparency International vegna ólýðræðislegra og óboðlegra vinnubragða starfsmanna Samherja, svonefndrar skæruliðadeildar, kemur fram, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn og sérstaklega stjórnarliðar geta ekki lengur komið sér undan því að takast á við hið pólitíska og kerfislæga umhverfi sem umber svona framgöngu árum saman. Annaðhvort eru þeir með almenningi í baráttunni gegn spillingu eða á móti með þögn, meðvirkni, aðgerðarleysi og seinagangi við að koma upp nútímalegum spillingarvörnum milli stjórnsýslu og viðskiptalífs. Stjórnmálin geta ekki lengur litið undan.“

Ég tek heils hugar undir þessa yfirlýsingu, herra forseti. Meðvirknin með óbilgjörnum sérhagsmunaöflum er ótrúleg. Aðgerðaleysið í kjölfar Namibíumálsins er svakalegt. Af þeim sjö aðgerðum sem ríkisstjórnin sagðist ætla að grípa til í kjölfar þessa risavaxna spillingarmáls má segja að ein hafi mögulega orðið að veruleika. Ekkert varð t.d. af þeim aðgerðum sem sjávarútvegsráðherra átti að taka að sér og ætti kannski engan að undra eftir svör hans við fyrirspurn minni í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í dag. Ráðherrann ætlar greinilega ekki aðhafast neitt, hvað ætti hann enda að aðhafast verandi bullandi vanhæfur til allra aðgerða tengdra þessu félagi?

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra, sem segist vilja efla traust á stjórnmálunum, Alþingi og stjórnsýslunni: Treystir hún enn þá hæstv. sjávarútvegsráðherra til að fara með það embætti? Er réttlætanlegt að hann sitji í því embætti á meðan þetta mál tröllríður samfélaginu? Er það til þess fallið að auka traust á stjórnmálunum að hafa þennan sjávarútvegsráðherra sitjandi áfram í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur?