151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Traust er nauðsynlegt svo að heilbrigt samfélag þrífist og samfélag sem ekki býr við traust er veikt og gjaldfellir lýðræði og samfélagslega ábyrgð. Í löndunum í kringum okkur eru vaxandi áhyggjur af dvínandi trausti á stjórnsýslu og valdastofnunum. Þar hafa risið upp öfgahópar og falsfréttir hafa sitt að segja þar. Nafnlaus áróður er ein birtingarmynd þess og fyrir Alþingi liggur nú mál sem tekur á þessum þáttum.

Á Íslandi er mikið traust til grunnstoða samfélagsins og stofnana þess. Það segir mér að við séum í heilbrigðu samfélagi og verið sé að vinna vel að því að byggja upp traust regluverk milli stjórnsýslunnar og almennings í landinu. Sú sem hér stendur man vel þegar trúnaðartraustið brast á milli almennings og stjórnvalda í kjölfar hrunsins og það er því ánægjulegt að traust til Alþingis hafi aukist mjög undanfarin ár með markvissum aðgerðum Alþingis og nú undir stjórn hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur.

En það má nefna það sem gert hefur verið, ný upplýsingalög og skráningu hagsmunavarða, vernd uppljóstrara og skráningu raunverulegra eigenda, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur verið stefna þessarar ríkisstjórnar að efla traust almennings á stjórnmálum og ég tel að það hafi tekist. Þar þarf ávallt að vera á verði og takast á við þær áskoranir sem framtíðin ber í skauti sér hverju sinni. Það mun því verða viðvarandi verkefni stjórnvalda að tryggja heiðarlega og gagnsæja stjórnsýslu og þar má aldrei sofna á verðinum. Alltaf skal setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og það tel ég vera það verkefni sem við munum vinna að hér á Alþingi eftir sem áður. Allt tal hér um Samherja er eitt af því sem vekur okkur til umhugsunar um hvernig samfélag við viljum byggja. (Forseti hringir.) Og það sem hefur komið fram um Samherja er mjög ámælisvert, svo vægt sé til orða tekið.