Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:15]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er þakklátur fyrir þessa umræðu þó að ég undrist mjög hver er málshefjandi. En ef það er þannig að traust á Alþingi og stjórnsýslu sé svo lítið þá erum við sjálf sökudólgurinn, alveg augljóslega. Og af hverju erum við búin að draga svona úr trausti og trúverðugleika? Það er vegna þess að við erum alltaf hér í upphrópunum, eins og bara núna í þessari umræðu, í stað málefnalegrar og gagnrýninnar umræðu. Við tölum allt niður í stað þess að hafa uppi einhverja pólitíska hugmyndafræði. Það er allt talað niður. Það er grafið undan stjórnsýslunni nánast á hverjum degi í þessum þingsal. Dómstólum og stjórnsýslunni er ekki leyft að vinna sína vinnu. Nei, það er af því að við erum hér alltaf í upphrópunum. Með þessum hætti dregur úr trausti og virðingu gagnvart stjórnmálunum og stjórnsýslu, þannig að við þurfum sjálf að taka okkur taki. Það skiptir máli hvernig við komum fram, hvernig við erum klædd þegar við komum fram. Málefnaleg gagnrýni má vera hvöss, en við ráðum ekki við það, það skulu alltaf vera upphrópanir um einhverja aðra en okkur sjálf til að grafa undan stjórnmálunum. Við erum snillingar í því og höfum verið snillingar í því nokkuð lengi, hæstv. forseti, þannig að við þurfum að taka okkur á. Við sjálf. Það gerir það enginn annar.