Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er merkilegt að standa hér í lok kjörtímabils og vera í þeim sporum að þrátt fyrir orð í stjórnarsáttmála um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnkerfi þá líður mér örlítið eins og lítið hafi gerst og að ríkisstjórnin hafi í raun tekið skref aftur á bak þegar kemur að trausti á stjórnmálum. Því skal þó haldið til haga að hér voru sett lög til verndar uppljóstrurum, lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum og fleira. En skilaboðin, herra forseti, sem koma frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar hafa því miður ekki orðið til þess að auka traust á stjórnmálum. Þegar seðlabankastjóri tjáir sig um spillingu í íslensku samfélagi setur forsætisráðherra ofan í við blaðamann fyrir að hafa ekki spurt hvað seðlabankastjóri ætti við þrátt fyrir að það blasi við okkur öllum. Þegar nefndarfólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill að fram fari rannsókn á tengslum hæstv. sjávarútvegsráðherra við stjórnendur stórútgerðar, sem nú er að eigin sögn í stríði gegn mönnum, fyrirtækjum, fjölmiðlum, stjórnmálafólki og fjölskyldum þess, beita stjórnarþingmenn í nefndinni valdi sínu til að stöðva slíka rannsókn. Þegar dómstólar fella dóma þess efnis að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipan sérvaldra dómara í Landsrétt standa stjórnarliðar sérstakan vörð um ráðherrann hér í þingsal og meta stöðu ráðherrans í ríkisstjórn mikilvægari en vörn fyrir sjálfstæði dómstóla.

Herra forseti. Þessa dagana á sér stað stríð sem opinberast æ meira á hverjum degi; stríð gegn almenningi, stríð gegn fjölmiðlafólki, listamönnum, stjórnmálafólki og fjölskyldum þess. „Okkar maður“ í ríkisstjórn er á útleið og fram fer val stríðsherrans á nýjum manni í ríkisstjórn fyrir allra augum, fyrir augum okkar allra, og forsætisráðherra vill að blaðamenn spyrji seðlabankastjóra út í hvað hann eigi við þegar hann ræðir um spillingu í viðtölum.