151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

traust á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[14:19]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu sem virðist nú fara út um nokkuð víðan völl. Á árinu 2018 dró starfshópur forsætisráðherra saman mikilvægar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á traust og hvernig hægt sé að vinna markvisst að því að auka traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Það er mikilvægt að geta sótt þekkingu og ábendingar til nágrannaríkja og alþjóðlegra samtaka og stofnana. Sú þekking nýtist okkur hins vegar best ef við vinnum með hana og gerum hana að okkar, útfærum aðgerðir og miðlum þekkingunni í okkar veruleika.

Ég vil þess vegna beina sjónum mínum að mikilvægi símenntunar, en fjórar af þeim 25 aðgerðum sem lagt var til að farið yrði í, snúast um eflingu Stjórnarráðsskólans þar sem lögð er áhersla á menntun starfsfólks, fræðslu og gagnrýna umræðu. Ég finn hins vegar lítið um hvernig til hefur tekist við þessi símenntunarverkefni. Ég veit þó að sitthvað hefur verið gert og vil leggja áherslu á það við hæstv. forsætisráðherra að símenntun er vanmetið verkfæri við að breyta og bæta stofnanamenningu og styður allar hinar aðgerðirnar. Það er sama hvað við setjum af lögum á Alþingi eða reglum, ef fólk er ekki þjálfað í að fylgja þeim og skilja hugsunina sem að baki býr skilar það ekki tilætluðum árangri. Stjórnarráðsskólinn þarf að vera öflugur, ná utan um reglubundna þjálfun allra starfsmanna á sviði opinberra heilinda en ekki síður þjálfun í að fylgja reglum stjórnsýslunnar og tryggja færni og fagmennsku í þeim verkefnum sem fólk sinnir dagsdaglega, því að þegar allt kemur til alls byggir traust fyrst og síðast á því hvernig til tekst við lausn daglegra verkefna, hvort sem þau eru unnin í stjórnsýslunni eða hér á Alþingi.