151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:40]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessi stjórn hefur haft fjögur ár til að leysa úr þeim vanda sem við vitum öll að er aðkallandi og stór heil fjögur ár án þess að leggja hér á borð neinar eiginlegar lausnir. Markmið þessa frumvarps er gott en leiðin sem er valin er algerlega fráleit. Hér er ekki tekið á neinn hátt á þeim vanda sem skilar þeirri stöðu sem við horfum upp á í dag. Það er ekki tekið á erlendum efnisveitum, það er ekki tekið á yfirburðastöðu RÚV. Ekki eitt einasta skref er tekið til að tryggja heilbrigt og eðlilegt rekstrarumhverfi fjölmiðla. Mér finnst satt best að segja að ríkisstjórnin sé í þessu máli að sýna dugleysi sitt allrækilega. Það dugar ekki að fara inn með ríkisstyrkjum með þeim hætti sem hér er gert og er reyndar til þess fallið að skapa óheilbrigðara umhverfi en ekki. Þannig að þrátt fyrir að markmiðið sé gott er leiðin sem valin er þess eðlis að Viðreisn getur ekki stutt þetta mál.