151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir breytingartillögu við 1. gr. í þessu ágæta frumvarpi sem við erum búin að ræða nokkrum sinnum. Þessi tillaga er frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Það er ég sem hér stend, Ari Trausti Guðmundsson, og hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Hanna Katrín Friðriksson, Jón Gunnarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Líneik Anna Sævarsdóttir sem mynda þennan meiri hluta. Breytingartillagan er mjög stutt:

„Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2022“ í lokamálsgrein 1. gr. komi: 31. desember 2021.“

Ég tel breytingartillöguna vera í sátt við aðra nefndarmenn að því marki auðvitað að ekki verði aðrar breytingartillögur lagðar fram. Gildistími þessarar sérstöku Covid-lagaheimildar er til loka yfirstandandi árs en hvorki fram á næsta ár né til loka þess eins og hefur verið haldið á lofti hér í þingsal og í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég ætla því að vona að þetta verði lyktir málsins.