151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[14:59]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði undir þessari umræðu bara að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að hafa lagt í þá vinnu að breyta þessu frumvarpi stórkostlega í grundvallaratriðum frá því frumvarpi sem lagt var fram fyrst á milli 2. og 3. umr. að því er lýtur að Íslendingum og réttaráhrifum frumvarpsins á Íslendinga — og núna fyrir 3. umr. sem er lagabreyting sem lýtur að gildistíma frumvarpsins og þeirra laga sem verða þá að lögum. Gildistíminn er styttur verulega. Upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir nánast tveggja ára gildistíma sem að sjálfsögðu hefði verið fullkomlega óásættanlegt í ljósi tilgangs og markmiða þessa lagafrumvarps og í ljósi meðalhófs sem þingmenn hér eiga ætíð að hafa í heiðri. Í því ljósi hef ég afturkallað tillögu til breytinga á þessu frumvarpi er lýtur að gildistímanum. Ég vil bara þakka fyrir ágætissamstarf við hv. nefnd að þessu leyti.