151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breyting á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024.

802. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 40/150, um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024. Þetta er tillaga sem lögð er fram af umhverfis- og samgöngunefnd og eins og fram kom hjá hæstv. forseta er þetta mál nr. 802 og á þskj. 1471.

Það er lagt til að Alþingi álykti í samræmi við lög um samgönguáætlun að eftirfarandi breytingar verði gerðar á ályktun Alþingis um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024, samanber þingsályktun nr. 40 frá 150. þingi.

Þessar tillögur til breytinga liggja fyrir í töflum í ályktuninni. Þetta eru breytingar á töflum um flug, vegi og hafnarframkvæmdir. Ástæðan fyrir þessari tillögu um breytingar á fimm ára áætluninni sem var samþykkt hér fyrir tæplega ári síðan má í rauninni rekja til fjárfestingaátaks ríkisstjórnarinnar í kjölfar Covid og viðbótarfjármagns til samgönguframkvæmda í gegnum fjármálaáætlun sem við afgreiddum í lok ársins 2020. Ég ætla að fara aðeins ofan í greinargerðina.

Alþingi samþykkti 29. júní 2020 samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 sem ályktanir nr. 41/150 og 40/150. Áhrif af heimsfaraldri Covid-19 urðu til þess að forsendur þeirrar samgönguáætlunar sem var í vinnslu í þinginu fyrir rúmu ári síðan gjörbreyttust í einni svipan. Til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins samþykkti Alþingi sérstakt tímabundið fjárfestingarátak og þá var 6.506 millj. kr. ráðstafað til framkvæmda við samgöngumannvirki til viðbótar því sem gert var ráð fyrir þegar samgönguáætlunin var lögð fram seint á árinu 2019. Í meðförum nefndarinnar voru lagðar til breytingar við samgönguáætlun til samræmis við efni fjárfestingarátaksins og lögð áhersla á að þeim verkefnum sem hrundið var af stað með þessu átaki árið 2020 yrði tryggt fjármagn í framhaldinu. Það væri ekki aðeins hafist handa við verkefnin heldur væri þeim lokið þannig að það yrði samfella í framvindu framkvæmda. Það gerðist svo við afgreiðslu fjármálaáætlunar síðastliðið haust að það bættust við fjárveitingar sem tryggja áframhald verkefna fjárfestingarátaksins auk viðbótar, m.a. til hafnarframkvæmda, sem ekki voru að öllu leyti hluti af upphaflegu fjárfestingarátaki 2020.

Í þingsályktunartillögunni eru þess vegna aðeins lagðar til breytingar á fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020–2024 til að tryggja áframhaldandi fjárveitingu til verkefna fjárfestingarátaksins og því ekki talin ástæða til að leggja fram tillögu að nýrri forgangsröðun framkvæmda á seinni tímabilum 15 ára samgönguáætlunarinnar. Það er sem sagt ekki gerð nein tillaga um breytingar á áætlun 2020–2034.

Í greinargerðinni eru verkefnin rakin frekar en ég ætla ekki að fara ofan í þau lið fyrir lið. Þær vegaframkvæmdir sem lagt er til að verði fjármagnaðar fyrir tímabilið 2021–2023 eiga það sammerkt að vera þjóðhagslega arðbærar, skapa störf á tímum efnahagssamdráttar vegna heimsfaraldurs og stuðla að greiðari samgöngum og öryggi í umferðinni. Við það sem stendur hér má svo auðvitað bæta að þetta voru allt verkefni sem mögulegt var að fara í hratt, hrinda í framkvæmd með stuttum fyrirvara þegar lagt var af stað í fjárfestingarátakið fyrir rúmu ári síðan.

Það er eins með hafnarframkvæmdir, þ.e. framhald vegna fjárfestingarátaks 2020, framlag til hafnarframkvæmda tryggir áframhald á framkvæmdum sem hófust á árinu 2020. Þar að auki er framlag til viðhaldsdýpkunar og styrkingar sjóvarna í framhaldi af óveðrinu síðasta vetur. Það var ekki að fullu komið til þegar var verið að ganga frá samgönguáætluninni fyrir ári síðan. Svo eru ákveðnar breytingar innan einstakra hafna en það er allt rakið ítarlegar í greinargerðinni.

Þá eru það flugmálin. Það liggur fyrir að það eru mikilvægar framkvæmdir við flugvelli samkvæmt samgönguáætlun og fjárfestingarátaki. Fjárfestingarþörfin var í rauninni meiri en það sem fjármagnað var að fullu. Það sem hefur kannski breyst frá því að samgönguáætlun var afgreidd fyrir ári síðan er að Isavia tók ekki við rekstri Egilsstaðaflugvallar eins og gert var ráð fyrir. Það gerðist um síðustu áramót. Það breyttist vegna Covid-faraldursins. Auðvitað hafa orðið algjör umskipti í rekstri Isavia á síðasta rúma ári.

Þetta verður til þess að forgangsröðum fjárveitinga úr ríkissjóði til Egilsstaðaflugvallar er breytt og malbikun flugbrautar á Egilsstaðaflugvelli sett í forgang í stað þess að fara í að leggja akbraut eða viðbótarflugvöll eins og til stóð samkvæmt áætluninni. Sú fjárveiting sem ætluð var í að byggja viðbótarakbraut og stæði fyrir vélar var því í rauninni flutt í malbikun flugbrautar sem er mjög áríðandi verkefni. Flugbrautin liggur undir skemmdum verði ekkert að gert. Þar er áætlaður kostnaður 1,6 milljarðar, þar af er 1,4 milljarðar veittir til verksins á þessu ári. Samt sem áður er gert ráð fyrir að farið verði í vinnu við akbraut á Egilsstaðaflugvelli. Auk þess hefur komið í ljós að það krefst meiri undirbúnings en gert var ráð fyrir þegar var verið að vinna þessar tillögur fyrir ári síðan. Það er því í fyrsta lagi mögulegt að hefjast handa 2024 fáist verkið fjármagnað fyrir þann tíma.

Það eru svo í gangi verkefni varðandi byggingu flugstöðvar á Akureyrarflugvelli sem eiga að geta gengið eftir og miðað er við að hægt verði að ljúka þeirri framkvæmd árin 2023. Eins við flughlað á Akureyri en þar hefur kostnaðaráætlun aðeins hækkað og því vantar aðeins upp á fjármögnun þeirrar framkvæmdar sem verður að fara í að vinna að nú í framhaldinu. Hönnun flughlaðsins er á lokastigi þannig að þetta er verkefni sem út af stendur eftir þessa tillögu.

Svo eru ýmiss konar minni viðhaldsverkefni á flugvöllum sem lagt er til að farið verði í.

Þá hefur verið gerð grein fyrir aðalatriðum í þessari þingsályktun sem lögð er fram af umhverfis- og samgöngunefnd og nú liggur hún hér fyrir til afgreiðslu Alþingis.