151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breyting á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024.

802. mál
[15:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni nefndarálits, Líneik Önnu Sævarsdóttur, fyrir framsöguna og það að mæla fyrir þessari breytingu. Það lá fyrir að þingslályktunartillaga yrði lögð fram af hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að ramma inn þau áhrif sem verða á samgönguáætlun m.a. af hinum ýmsu átaksverkefnum sem gengið hefur verið til í samhengi við Covid-ástandið allt saman.

Það er eitt sem mig langaði sérstaklega að nefna í þessu samhengi og það er staðan sem uppi er gagnvart flugvöllunum. Eins og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á er það verkefni sem í flugöryggislegu tilliti hefur gríðarleg áhrif, þ.e. akbraut meðfram Egilsstaðaflugvelli, í rauninni að falla út frá fyrri áætlunum með framlagningu þessa máls. Í samhengi við orðaskipti sem við hæstv. samgönguráðherra áttum hér fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnatíma veltir maður auðvitað fyrir sér hvað hæstv. ráðherra meinar í þeim málum heilt yfir, burt séð frá þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir.

Það er búið að flagga því árum saman að þetta gríðarlega mikilvæga mál sé í höfn, að búið sé að tryggja uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli þannig að hann geti sinnt varaflugvallarhlutverki sínu sómasamlega en svo kemur fram við vinnslu þessa máls að svo er bara einfaldlega ekki. Fjárveitingarnar sem áttu að fara í akbrautina verða færðar yfir í að malbika brautina á vellinum sjálfum sem hefur verið æpandi þörf á árum saman og í rauninni er mesta lukka að undirlag og annað og óafturkræfar skemmdir hafi ekki orðið á þeim tíma sem þurfti að bíða eftir slíku.

Ég vil bara að menn hafi það í huga að hljóð og mynd verða að fara saman í þessum málum. Ef hæstv. samgönguráðherra sá ástæðu til þess fyrr í dag að ýja að því að þingmenn teldu forsvaranlegt að stjórna með þeim hætti að segja eitt í dag en annað á morgun þá verð ég að vísa þeim ummælum til föðurhúsanna. Hæstv. ráðherra verður að líta í eigin barm hvað það varðar því að þessi leið, sem virðist hafa verið áætluð til að bjarga málum á Egilsstaðaflugvelli í horn með einum eða öðrum hætti, virðist algerlega hafa klúðrast. Auðvitað er hægt að skáka í því skjóli að það sé vegna áhrifa Covid-ástandsins á Isavia. Staðreyndin er auðvitað sú að það er nýbúið að taka ákvörðun um að spýta verulegum fjármunum inn í Isavia sem nýju hlutafé til að standa undir framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að það sé ákvörðun að sinna ekki þessum verkefnum á Egilsstaðaflugvelli. Úr því að hægt var að taka ákvörðun um að halda framkvæmdum áfram í Keflavík þrátt fyrir áhrif Covid-faraldursins en að falla frá hugmyndum um akstursbraut, sem hefur gríðarleg áhrif hvað hlutverk Egilsstaðaflugvallar varðar sem öryggisflugvallar, þá verður það að liggja fyrir.

Skipulagsmálin eru sannarlega þannig að þessi akstursbraut verður ekki hrist fram úr erminni. Að það sé að koma í ljós núna með þeim hætti sem lýst er í minnisblaði frá ráðuneytinu að ekki sé raunhæft að horfa — þó að ég finni það ekki í mjög fljótu bragði held ég að horft sé til ársins 2026, með leyfi forseta:

„Undirbúningi fyrir akbrautina verði haldið áfram og miðað við að hægt verði að hefja framkvæmdir 2024 ef fjármögnun fæst.“

2024. Þetta er framkvæmd sem var flaggað sem Covid-aðgerð. Það stenst auðvitað enga skoðun og auðvitað verður samgönguráðherra að reyna að útskýra hvar hann keyrði út í skurð hvað þetta mál varðar. Það er ekki boðlegt að það fljóti bara upp á seinni stigum að þetta sé hvorki fær leið skipulagslega né fjárhagslega en búið að gera mikið úr því að það eigi að búa til fleiri þúsund störf, reyndar ekki bara í þessu verkefni, gríðarlega atvinnuuppbyggingu og fjöldi starfa eigi að verða til, m.a. við þessar framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, þegar raunin virðist sú að það var aldrei nein meining á bak við það. Það hlýtur að hafa legið fyrir í einhvern tíma inni í ráðuneyti að þessi leið væri ekki fær. Svo kemur hæstv. ráðherra hingað og talar um að aðrir þingmenn telji sig geta sagt eitt í dag en annað á morgun þegar staðreyndin er sú að það er akkúrat það sem hæstv. samgönguráðherra hefur gert í þessu máli.

Ég er hér með útprentun úr frétt af vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 28. nóvember 2019 þar sem m.a. er verið að fagna undirritun samnings um rannsóknir á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni sem er auðvitað algerlega galið að sé enn þá staðið í þegar eldgos er þar í næsta nágrenni. Einn af áherslupunktunum í því plaggi sem er undirritað í lok árs 2019 er, með leyfi forseta:

„Egilsstaðaflugvöllur endurbættur sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug. Lagt er til að Egilsstaðaflugvöllur verði endurbættur sem varaflugvöllur fyrir millilandaflug um Ísland með það að markmiði að koma megi allt að 15 fleiri vélum fyrir á flugvellinum með því að gerð verði akstursbraut með fram flugbrautinni.“

Þessi samningur er frá því 2019. Þá er ekki brostið á neitt Covid. Síðan líður og bíður og ítrekað er fjallað um að nú fyrst séu forsendur til að keyra hratt á þetta af því að það þurfi svo mikla innspýtingu vegna hinna ýmsu Covid-aðgerða. Svo enda menn uppi á skeri með málið, bæði fjárhagslega og skipulagslega, og í þeim efnum verður að vísa allri ábyrgð á samgönguráðherra.

Ég vildi halda þessu til haga. Því miður er þetta ekki eina atriði sem hægt væri að benda á. Það sem er svona mest hrópandi núna er að þessi viðauki við breytingu á samgönguáætlun sé að ramma inn það algera úrræðaleysi og að því er virðist áhugaleysi hæstv. samgönguráðherra á að koma Egilsstaðaflugvelli til forsvaranlegs horfs hvað varaflugvallarhlutverk hans varðar. Það er þá ágætt að það liggi fyrir núna að það sé raunin. Hvers vegna er það sem snýr að skipulagsmálunum og töfum í þeim efnum að fljóta upp árið 2021 þegar þetta er sérstakt áhersluatriði í frétt samgönguráðuneytisins frá því seinni part árs 2019? Annaðhvort er ráðherrann og hans fólk ekki nægjanlega vel inni í málinu, sem er auðvitað áhugavert út af fyrir sig, eða menn stungu hausnum í sandinn og vildu ekki sjá raunveruleikann sem í þessu fólst. Í öllu falli er búið að vera að blekkja flugsamfélagið út frá þessum öryggislega vinkli og heimamenn fyrir austan. Þó að þetta komi upp með þessum hætti núna verður maður að gefa sér að þessar skipulagslegu athugasemdir hafi verið komnar fram löngu áður en mál voru sett í þann búning að ganga eigi í þetta sem sérstaka Covid-aðgerð. Annað stenst enga skoðun.

Þetta var það sem ég vildi halda til haga við þessa umræðu. Ég fagna því að málið sé fram komið og að búið sé að færa hinar ýmsu ákvarðanir inn í samgönguáætlun með þeim hætti sem hér er gert. En ég taldi nauðsynlegt að halda því til haga varðandi flugvallarhlutann að þarna er gat sem féll ekkert af himnum ofan. Það ætti að hafa verið mönnum ljóst um allnokkra hríð. Það er því miður í besta falli sýndarmennska í því fólgin að flagga málum ítrekað sem þau væru handan við hornið þegar blasir við að engin meining var þar á bak við.