151. löggjafarþing — 100. fundur,  25. maí 2021.

breyting á þingsályktun nr. 40/150 um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024.

802. mál
[15:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að byrja á að svara spurningunni: Jú, það hefði örugglega verið til mikilla bóta hefði Isavia flaggað þessu strax þá. En ég yrði að fara í minnispunktana mína upp á akkúrat hvaða viðbrögð komu frá þeim þá. Maður skyldi ætla að öll skilaboð sem berast frá Alþingi með einum eða öðrum hætti, hvort sem það eru nefndarálit samgöngunefndar eða frumvörp sem hér eru lögð fram eða þess háttar, hafi borið að þessum sama brunni, að þessi yfirfærsla væri það sem væri verið að horfa til.

Kannski er vandamálið þarna að það er ekki sami áhugi ráðuneytis sem fer með hlutabréf Isavia og ráðuneytis sem fer með faglega umsjón flugvallarmála á Íslandi og flugmála heilt yfir, samgönguráðuneytis annars vegar og fjármálaráðuneytis hins vegar. Kannski er þetta enn einn angi af þessari ohf.-væðingu sem ég hef persónulega haft miklar efasemdir um að hafi verið til góðs. Ég held að vandamálið sé það sem ég nefndi áðan, að ekki hafi farið saman hljóð og mynd lengi milli sjónarmiða samgönguráðherra og samgönguráðuneytis annars vega, Isavia hins vegar og þriðji aðilinn í þessu er síðan kannski fjármálaráðuneytið.

Fyrir flug og flugöryggismál á Íslandi þarf með einhverjum hætti að leiða í jörðu hvernig þetta verður því að núverandi staða er ekki boðleg. Það upplausnarástand, sem ég leyfi mér að kalla, sem Egilsstaðaflugvöllur finnur sig í núna er ekki boðlegt, hvorki þeim fyrir austan sem þar starfa, flugfélögunum sem nýta hann né út frá varaflugvallakerfinu og þeim skilaboðum sem Alþingi hefur sent. Ég held að það (Forseti hringir.) geti ekki nokkur þingmaður og allra síst við fulltrúar í umhverfis- og samgöngunefnd verið sáttir við það hvernig þessi mál eru að snúast. En ég tek undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) að það má örugglega til sanns vegar færa að Isavia hefði mátt stíga fastar til jarðar hvað varðar efasemdir sínar um að (Forseti hringir.) þetta væri raunin.