151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Efling atvinnu og verðmætasköpunar í landi okkar er brýnni nú en nokkru sinni fyrr. Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og fleiri sérfræðingar hafa talað fyrir því hversu mikilvægt það er að fjölga eggjum, fjölga stoðum velferðarsamfélagsins með aukinni atvinnu og verðmætasköpun. Við munum ekki geta gert betur í þeim málaflokkum sem kallað er eftir meira fjármagni í í velferðarsamfélagi okkar nema til verði aukin verðmætasköpun og fleiri atvinnutækifæri á fjölbreyttari vettvangi en nú er. Sumir flokkar vilja reyndar leysa málin með aukinni skuldsetningu eins og Samfylkingin talar helst fyrir án þess að tala um neinar haldbærar lausnir aðrar.

Við heyrum fréttir af Landsvirkjun, sem bárust bara nú í vikunni, þar sem talað er um miklar viðræður við aðila; að það sé mjög mikil ásókn erlendra aðila, sem hingað vilja koma og byggja upp, í viðræður við fyrirtækið um alls konar nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Það má nefna vetnisframleiðslu, framtíðarorkugjafa í flugvélum, skipum og stærri flutningatækjum. Það má nefna gagnaversiðnaðinn sem mun geta farið af stað af miklum krafti þegar nýr sæstrengur til gagnaflutninga verður lagður milli Íslands og Evrópu á næsta ári. Þeir nefna rafhlöðuframleiðendur sem framleiða rafhlöður í bíla og önnur farartæki. Lykillinn að þessu er raforka, aukin raforka. Við munum ekki geta svarað þessum fyrirspurnum nema til komi frekari virkjanir á náttúruauðlindum okkar.

Það má segja að Alþingi hafi gefist upp í þessum efnum. Nú liggur fyrir Alþingi rammaáætlun sem hefur ekki verið afgreidd í mörg ár, komin langt fram úr þeim tímamörkum sem við eigum að hafa samkvæmt lögum. Það stefnir í að hún strandi eina ferðina enn. Það er mjög alvarlegt, virðulegur forseti, þegar staðan er þessi. Alþingi ber hér mikla ábyrgð.