Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

störf þingsins.

[13:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Í þessum töluðu orðum er hafið málþing Öryrkjabandalags Íslands undir yfirskriftinni Heimsmet í skerðingum. Skerðingar og keðjuverkandi skerðingar í almannatryggingakerfinu eru fáránlega miklar og komnar út fyrir öll velsæmismörk. Keðjuverkandi skerðingar ná yfir félagsbótakerfi, barnabætur, húsaleigubætur og einnig sérstakar húsaleigubætur. Þetta skerðingarskrímsli sem er ekkert annað en fjárhagslegt ofbeldi veldur því að stór hópur veiks fólks, eldri borgara og atvinnulausra lendir í sárafátækt. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur byggt upp þetta ömurlega kerfi og viðhaldið því með auknum skerðingum, sett inn krónur hér og þar sem hafa bara skilað smáaurum í vasa fólks ef það er svo heppið. Oft skilar fjármagn á einum stað í kerfinu ekki krónu til þeirra sem þurfa heldur veldur tapi á lífeyri sem er þegar lágur að vonlaust er að reyna að tóra á honum, hvað þá að lifa mannsæmandi lífi. 140.000 kr. er kostnaður fyrir tvo öryrkja að búa saman. 340.000 kr. er lágmarksframfærsla, sem Útlendingastofnun segir hjón þurfa til framfærslu, sem er 10.000 kr. undir lágmarkslaunum. Á Alþingi er nú í fyrsta sinn heill þingflokkur sem hefur lifað í þessu kerfi og veit því upp á hár hversu ömurlegt það er að reyna að ná endum saman í því. 5 milljarðar á ári í auknar skerðingar og því 20 milljarðar í boði ríkisstjórnar í auknar skerðingar. 109.000 kr. frítekjumark ætti að vera í dag uppfært í 250.000 kr. 100.000 kr. hækkun á frítekjumarki í lífeyrissjóð ætti einnig að vera sjálfsagt mál. Faldar skerðingar hjá ríkinu eru t.d. vegna bifreiðagjalda sem hafa ekki hækkað í fimm eða sex ár. 80–100% skerðingar eru í kerfinu. Þeir sem fá arð upp á milljarð, myndu þeir sætta sig við það að fá bara halda 260 milljónum eftir?