151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[13:38]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp sem hefur átt sér dálítið stormasamt líf, athyglisvert efni sem eru breytingar á tilteknu atriði í gildandi lögum um loftferðir. Raunar er álitamál hvort lagasetningin er brýn úr því sem komið er. En allt um það, í allri umfjöllun nefndarinnar kom skýrt fram að enginn ágreiningur er um mikilvægi þess að tryggja sóttvarnir eins og nokkur kostur er. Við í Samfylkingunni höfum verið einbeitt, stutt ítarlegar tillögur í því efni en gert athugasemdir við aðferðir og nálgun. Áherslur okkar eru skýrar. Öll skref sem stigin eru í afdrifaríkum aðgerðum fyrir einstaklinga og fjölskyldur og skerða frelsi þeirra til athafna, ferða og samskipta verða að hafa styrkan lagagrundvöll svo að reglugerðin haldi. Niðurstaðan er viðunandi og þingflokkur Samfylkingarinnar styður frumvarpið.