151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

loftferðir.

613. mál
[13:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmanni sem talaði á undan mér. Mikilvægt er að heimildir sem eru settar í hendur framkvæmdarvaldsins og skerða réttindi fólks séu eins þröngt skilgreindar og hægt er til að þær nái fram nauðsynlegum tilgangi. Þegar frumvarpið kom upphaflega frá umhverfis- og samgöngunefnd var það allt of vítt. Því miður þurfti töluvert átak til að snúa meiri hlutanum af þeirri braut að láta frumvarpið ná yfir of stóran hóp fólks en sem betur fer náðist það. Nú er enn verið að þrengja málið þannig að það verði skaplegra með því að stytta gildistíma þess. En mikið vildi ég, herra forseti, að á þessum fordæmalausu tímum hefði þingið sýnt þá fordæmalausu hegðun að taka rökum betur, hlusta og bregðast hraðar við þannig að við hefðum ekki þurft að berjast fyrir þeim sjálfsögðu breytingum sem við höfum séð verða á frumvarpinu.