151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

768. mál
[13:48]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þótt ég leggist ekki gegn frumvarpinu, enda er þetta úrræði sem hefur nýst mjög mörgum og nýst mjög vel í ákveðnum tilfellum, þá er hér ákveðið viðvarandi vandamál. Búinn var til séreignarlífeyrissparnaður svo fólk gæti byggt upp séreignarlífeyri. Síðan hafa verið búin til fjögur, fimm, jafnvel sex mismunandi úrræði til að leyfa fólki að taka út þennan pening sem það á nú þegar og nota hann í húsnæði, til að geta borgað húsaleigu á tímum Covid og fleira. Ég held að tímabært sé að við endurskoðum séreignarlífeyrissparnaðarkerfið og reynum alla vega að laga það og koma því í það horf að það geti orðið að lífeyrissparnaði frekar en að það sé hækja fyrir húsnæðiskerfið og vegna þess að allt snýr einhvern veginn öfugt í hagkerfinu. Í dag ætla ég því að sitja hjá, ekki vegna þess að ég sé beinlínis á móti úrræðinu heldur vegna þess að ég held að við getum gert betur.