151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Aðeins um fyrri spurninguna, um spennitreyjuna sem fjármálaráð kallar gjarnan svo: Við byggðum hér inn óvissusvigrúm að vissu marki til að bregðast við því og það er til bóta.

Varðandi komu ferðamanna þá er auðvitað mesti slakinn í hagkerfinu tengdur ferðaþjónustu. Þar eigum við ónýtta framleiðslugetu og framleiðslutæki og óhjákvæmilega verðum við að treysta á jákvæða framvindu bólusetninga og að viðspyrnan komi með komu ferðamanna, við verðum bara að treysta á það. Hvort það mun gerast nægilega hratt til þess að spár gangi eftir treysti ég mér ekki til að fullyrða hér, en viðspyrnan verður ekki eins kröftug. Alveg eins og skellurinn varð kröftugur af því að vægi ferðaþjónustunnar er þetta mikið þá verðum við að treysta á að vaxa út úr þessu með stuðningi ferðaþjónustunnar. Það er óhjákvæmilegt.