151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég vil fyrst svara spurningunni um 34 milljarða afkomubætandi aðgerðir miðað við þær spár sem liggja til grundvallar og miðað við þá grunnspá sem miðað er við. Ég vil líka vekja athygli á að ef bjartsýnisspá gengur eftir þá erum við komin í 12 milljónir. Þetta er það jafnvægi sem við þurfum að horfa á fram á veginn, að varast að draga of hratt úr viðbrögðum og stuðningi við hagkerfið en þó ekki það geyst að það skapi hér verðbólguþrýsting. Og talandi um kjaragliðnun þá kemur það niður á öllum og ekki síst okkar viðkvæmustu hópum. En þetta er sú tala sem við horfum til miðað við spár að þurfi að fara í til að stöðva skuldasöfnun og virkja fjármálareglur að nýju. Verkefnið fram undan er auðvitað að vaxa út úr þessu (Forseti hringir.) þannig að það reyni ekki á þetta. En ég er sammála hv. þingmanni um að við þurfum að vernda (Forseti hringir.) viðkvæmustu hópa okkar að þessu leyti og það spegla allar tölur (Forseti hringir.) í aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar.

(Forseti (BH): Forseti minnir á að það er einungis ein mínúta til skiptanna þegar svo margir fá að veita andsvör.)