151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Til að byrja með ætla ég að segja að ég hef engar áhyggjur af efnahagsforsendum á næstu árum. Við erum með eldgos sem verður í gangi hérna í örugglega þó nokkur ár og ferðamannaiðnaðurinn hellist yfir okkur á næsta ári, ekki endilega á þessu ári en á næsta ári. Ef það gerist ekki væri fínt að vera með plan B. En það er ekkert plan B í þessari fjármálaáætlun um það hvernig eigi að koma í veg fyrir atvinnuleysi ef eldgosið reddar ekki ferðamannaiðnaðinum o.s.frv. Og ekki nóg með það, heldur viljum við eitthvað annað en bara ferðaþjónustu, ál með orku og sjávarútveg. Við viljum fjölbreyttari atvinnuvegi, en það hefur einmitt verið dregið úr þeim stuðningi sem verið hefur til nýsköpunar á undanförnum árum. Formaður fjárlaganefndar viðraði hér áhyggjur sínar af því hvernig ætti að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi, en ég sé ekki aðgerðir til þess nema núna rétt fyrir kosningar í smátíma. Ég sé heldur ekki hvernig verið er að byggja undir fjölbreyttari atvinnustarfsemi á Íslandi, heldur er bara treyst á að ferðaþjónustan muni bjarga okkur út úr þessu aftur.