151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þetta frábæra andsvar. Það var svo mikil birta í þessu andsvari. Það er ekki vanþörf á þegar við í hv. fjárlaganefnd erum búin að liggja yfir öllum þessum tölum og gögnum og umsögnum í langa tíð og erum að reyna að koma því frá okkur. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og vil draga fram þær áherslur sem verið hafa á nýsköpun, rannsóknir, þróun, þekkingargreinar, velsældaráherslur, sex velsældaráherslur sem stýra ferðinni og koma inn á 30 málefnasvið af 35. Þar þurfum við að gera betur í framhaldinu þegar við erum í stefnumörkun, sem ég veit að hv. þingmaður hefur talað mikið um. En mér er til efs að nokkru sinni hafi framlög verið eins og á þessum tíma, 2017–2021, tvöföldun til nýsköpunar, rannsókna og þróunar. (Forseti hringir.) Við eigum mikið undir því, og það kemur fram í fjölmörgum umsögnum, (Forseti hringir.) að ná auknum útflutningi í tækni- og þekkingargreinum.