151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir hennar andsvar. Ég held að við þurfum, þegar við ræðum almannatryggingar og tryggingakerfin okkar, sem hjálpa okkar viðkvæmustu hópum, að skoða hlutina í heildarsamhengi. Þegar frítekjumörk eru hækkuð hækka framlögin verulega, þetta hleypur á mjög háum fjárhæðum. Það sem við höfum einblínt á þetta kjörtímabil er að reyna að hækka tekjur þeirra sem minnst hafa í þessu kerfi. Það vill svo til að þegar við hækkum frítekjumörk þá fer mikið af fjármagninu til þeirra sem hafa hærri tekjur. Það viljum við ekki. Við viljum jafna stöðuna og hjálpa þeim sem minnst hafa.