151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir svarið. Hækka lægstu launin — þá spyr ég hv. þingmann: Hvernig stendur þá á því að raunveruleikinn er sá að í stað þess að hafa hækkað framfærslu til lægst launuðu tryggingaþeganna um 33%, eins og hv. þingmaður kom inn á í framsögu sinni áðan um fjármálaáætlun, hefur kjaragliðnunin í raun aukist? Í stað þess að fylgja launaþróun er leiðrétting almannatryggingaþega, með ekkert annað en berstrípaðar almannatryggingabætur, skilin eftir í mekki. Á meðan launabætur voru um 7,3% nú í janúar fengu lífeyrisþegar 3,6%. Það er alltaf að gliðna meira og meira og staðreyndin er sú að raðir hafa lengst við hjálparstofnanir vegna þess að þessi sárafátækasti hópur, okkar minnstu bræður og systur, er í stórkostlegum vandræðum. Það liggur þá í hlutarins eðli að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna í ósköpunum er ekki gert ráð fyrir því í fimm ára fjármálaáætlun, sem hv. þingmaður kom inn á áðan, að taka utan um og hjálpa betur okkar minnstu bræðrum og systrum?