151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Og já, ég tek undir með hv. þingmanni varðandi jöfnuð, það á að vera keppikefli, ekki bara okkar þjóðar heldur alls staðar í heiminum, að draga úr ójöfnuði með öllum ráðum. Blessunarlega eru flestir framámenn, stjórnmálaleiðtogar, hagfræðingar, fræðaheimurinn, farnir að tala í þá átt.

Ég ætla að draga aðeins fram heildarmyndina varðandi það jafnvægi sem við þurfum að ná á þá efnahagsframvindu sem við horfum til hér út frá spám, að stöðva skuldasöfnun frá og með 2023 og virkja fjármálareglu og þessa aðlögunarþörf. Ég ætla bara að segja það um leið að við þurfum að feta þetta stigi þannig að við drögum ekki of hratt úr stuðningi en stígum ekki þannig á bensínið að við missum verðbólgu af stað o.s.frv. Þessi aðlögunarþörf er einvörðungu til að stöðva skuldasöfnun. Af því að hv. þingmaður var hér með tillögur sem auka útgjöld get ég alveg tekið undir það að sértækir skattar, grænir skattar, eiga vel rétt á sér. En ég held að hluti af þessari heildarmynd, til að mynda þessar áherslur sem hv. þingmaður fór yfir varðandi velferðarkerfið okkar, sé sú staðreynd að það er stutt í það að velferðarkerfið okkar taki sex af hverjum tíu krónum sem við öflum í sameiginlega sjóði.

Ég held að verkefnið fram undan hljóti að vera að ná fram jafnvægi í að vaxa út úr þessu, (Forseti hringir.) hækka skatta ekki um of ef þörf er á því og horfa til sértækra skatta. Er sá skilningur minn réttur út frá ræðu hv. þingmanns?