151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Verkefnið fram undan er að koma okkur öllum út úr þessari kreppu. Verkefnið fram undan er að beina fjármagni þangað sem þörf er á því. Verkefnið fram undan er að létta undir með því fólki sem misst hefur vinnuna, stjórnvöld hafa ekki gert nægilega mikið til að dreifa þeim byrðum, en það eru rúmlega 20 þús. manns sem hafa þurft að bera byrðarnar í þessu ástandi. Mér finnst skömm að því hvernig komið er fram við það fólk. Nú í hverjum mánuði eru tugir manna að detta út af atvinnuleysisbótakerfinu og enda í félagsþjónustu sveitarfélaganna og hjá hjálparstofnunum til að lifa af. Það er til skammar og það er smánarblettur á íslensku samfélagi sem kemur þannig fram við fólk sem er atvinnulaust á tímum þar sem enga vinnu er að fá. Verkefnið er þetta, að dreifa byrðunum.

Út um allan hinn vestræna heim eru menn að horfa á þann hluta sem hefur hagnast á ástandinu og finna út úr því hvernig hægt er að afla tekna með því að dreifa byrðunum. Það er horft á þau sem hafa komið vel út úr þessari kreppu og það eru bara ansi margir, það eru u.þ.b. 90% fólks. Þetta er verkefnið, forseti. Það er rosalega stór biti að setja upp áætlun fyrir næsta kjörtímabil með 6–7% atvinnuleysi og ætla að skera niður eða afla skatta fyrir (Forseti hringir.) 34 milljarða kr. á ári frá árinu 2023. Það mun bara koma niður á velferðarkerfinu og því fólki sem þarf á þjónustu þess að halda.