151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:50]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hann kom inn á þróun leigumarkaðar og húsnæðismál. Stjórnmálahreyfing hans á aðild að meiri hluta hér í Reykjavík og seðlabankastjóri hefur nýlega látið orð um það falla að stefna í skipulagsmálum hér, stefna í framboði lóða til byggingar húsnæðis, sé með þeim hætti að það hafi bein áhrif á fasteignamarkað og fasteignaverð. Undir þetta sé ég tekið í viðtali við forstjóra Húsasmiðjunnar í Fréttablaðinu í dag, svo að ég leyfi mér að vitna til þess, þ.e. að sú skortstefna sem sé rekin á höfuðborgarsvæðinu sé að skapa vandamál á fasteignamarkaði og lyfta þannig með ákveðnum hætti undir íbúðaverð í landinu. Þá langar mig að nefna að það er náttúrlega mjög mikilvægt að athafnir stjórnvalda, hvort sem er ríkis eða bæja, rími saman. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður tekur undir þau orð seðlabankastjóra að stefna meiri hluta sem stjórnmálahreyfing hans á aðild að sé einmitt hluti af efnahagslegu vandamáli sem hann segir að ríkisstjórnin skilji eftir óleyst við lok kjörtímabils.