151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Nei, ég er ekki sammála því og skal reyna að útskýra af hverju. Ekki hefur áður verið byggt meira af íbúðum hér og verið er að slá met í íbúðabyggingu frá upphafi. Reykjavíkurborg er því að gera sitt. Já, stefnan hefur verið að vinna í þéttingu. Hluti af ástæðunni fyrir því er að það er svo rosalega dýrt að byggja vítt og breitt. Þá þarf að byggja upp innviði í heil ný hverfi sem er líka kostnaðarsamt. Þegar við skoðum þetta í því samhengi að Reykjavíkurborg hefur verið að bæta við langmest af íbúðum þá, ef við ætlum að tala um hvernig stefna stjórnvalda rímar saman, þurfum við líka að skoða hvernig þetta gengur um allt land. Þar hefur t.d. vantað upp á stofnframlögin í fleiri sveitarfélögum til að byggja upp íbúðir sem sveitarfélögin hafa verið að kalla eftir. Það er vandamál í húsnæðismálum út um allt land, ekki bara í Reykjavík. Reykjavík sinnir sínum hluta en það hefur vantað upp á á mörgum öðrum stöðum á landinu. Það eru ekki allir að vinna að þessu saman og það þýðir að enn þá er skortur. Miðað við það stenst gagnrýni seðlabankastjóra ekki, nema hann sé eingöngu að horfa til Reykjavíkurborgar. En hún ber ekki alla ábyrgð á uppbyggingu íbúða. Það eru fleiri sem bera ábyrgð á því líka, þar á meðal ríkisstjórnin, þar á meðal stofnframlög til húsnæðismála. Þannig að nei, ég tek ekki undir þessa gagnrýni af þeim ástæðum sem ég nefni og ég get ekki séð að þær séu ómálefnalegar.