151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekki það sem ég var að gagnrýna. Ég get alveg sætt mig við að ríkisstjórnin komi og segi: Við ætlum ekki að bæta neinu við stefnuna í framtíðinni af því að við ætlum ekki að vera saman í framtíðinni, við ætlum bara að fara í kosningar næst og þá ræðst hvað verður. Við erum hætt að búa til sameiginlega stefnu af því að við erum hætt að vinna saman. Þegar allt kemur til alls þýðir þetta það. Ef ríkisstjórnin er í alvörunni að vinna saman er hún að búa til áætlanir til langs tíma til að eyða óvissu í fjármálum. Um það voru lög um opinber fjármál samin til að byrja með. Ég gagnrýni að það vantar stefnumörkun málefnasviðanna þar sem koma uppfærslur á því hvernig þróunin með mælanleg markmið gengur. Það vantar. Ég vil fá að vita hvernig gekk að ná mælanlegum markmiðum árið 2020. Það vantar, við höfum ekkert um það. Við fáum það í ársskýrslu ráðherra í næsta mánuði — æðislegt. Við erum að taka ákvarðanir um fjárheimildir og stefnu stjórnvalda í fjármálaáætlun og þá viljum við vita hvernig stefna stjórnvalda og aðgerðirnar til að ná fram stefnu stjórnvalda ganga, áður en við ákveðum hvort halda eigi áfram að fjármagna þær. Ég er að gagnrýna það hvernig ríkisstjórnin má koma og segja: Við erum bara hætt að gera stefnu fyrir þetta kjörtímabil af því að við náum ekki saman lengur. Það er allt í lagi, það er bara málefnalegt. En það var ekki gert, það var ekki sagt, það var ekki komið og spurt: Megum við ekki bara sleppa þessu? Jú, það er í fína lagi en getið þið vinsamlegast uppfært hvernig gengur að framfylgja stefnunni ykkar? Það er ekki eitthvað sem ég er til í að gefa afslátt af. Að sjálfsögðu á að leggja fyrir fjárveitingarvaldið hvaða áhrif hafa orðið af fjárveitingum í verkefni og stefnu stjórnvalda. Það vantar og það gagnrýni ég.