151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið en það er eilítill misskilningur í því, er það ekki? Sú áætlun sem við samþykktum í desember grundvallast á sömu stefnu og speglast í þessari áætlun. Það er sama stefnan sem er á bak við þessar áætlanir. Þar kemur fram mjög ítarleg nálgun á stefnumörkun, hvernig hún birtist og hvernig hún er að nást fram á málefnasviðum. Hvort það sé nægilega skýrt er svo önnur umræða. Ég veit að hv. þingmaður hefur gagnrýnt það verulega, og ég get tekið undir þá gagnrýni, að við þurfum að bæta okkur í því að setja fram mælikvarða til að átta okkur á því hvort stefnan nái fram að ganga. Það er svolítið þungt að við þurfum að bíða eftir skýrslum úr hverju ráðuneyti, frá hverjum ráðherra, og þær koma á miðju ári og þá eru allir komnir í kosningabaráttu o.s.frv. Það er ýmislegt í þessari hringrás stefnumörkunar sem við þurfum að ná betur utan um, ég tek undir það. Hv. þingmaður gerði loftslagsmarkmiðin að umtalsefni sínu og mælikvarðana sem við þurfum að sjá þar. Í áætluninni sem við samþykktum í desember er komið mjög vel inn á velsældarmælinguna. Það er mjög athyglisverð framsetning og þar eru sex markmið undirliggjandi, m.a. í loftslagsmálum og þar eru settir fram mælikvarðar sem er hægt að nota. Spurning mín er þessi: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér — mér fannst á ræðu hv. þingmanns að þarna væri samhljómur — að við nýtum þessa útfærslu betur til að ná utan um þá mælikvarða sem við viljum svo gjarnan fá í fjárlagavinnunni?