151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir prýðisræðu og þakka honum jafnframt samvinnu í hv. fjárlaganefnd. Það er mjög freistandi að ræða hér árangursmiðaða fjárlagagerð en ég ætla að láta það vera að sinni. Við höfum oft rætt þetta áður eins og hv. þingmaður kom inn á í sinni ræðu. Ég vona að enginn skilji það þannig að hér sé eitthvert væl í gangi en við í þessari vinnusömu nefnd erum oft að horfa til mælikvarða og viljum gera betur og þá líður okkur oft eins og við séum að hlaupa á eftir málunum, bara til að afgreiða þau, kalla eftir upplýsingum, eftir umsögnum, hitta gesti, hlusta, ná fótfestu á bak við útgjöld sem boðuð eru o.s.frv. Við viljum sannarlega úr þessu bæta og ég held að það séu allir á því.

Ég ætlaði að koma inn á það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í sinni ræðu, hvernig efnahagsframvindan gæti mögulega orðið. Þá erum við að horfa til ferðaþjónustunnar. Það hefur mikið verið rætt hér í framsöguræðum og hv. þingmaður kom inn á þetta verkefni, að leysa langtímaatvinnuleysi og sætta sig ekki við þær spár sem birtast um 5% atvinnuleysi jafnvel þegar framleiðsluslakinn er farinn. Þá kem ég að þessu með ferðaþjónustuna, og það gerði hv. þingmaður líka, að þar eru framleiðsluþættirnir — mannauður, fyrirtækin, framleiðslutækin og auðvitað auðlindirnar sem eru stór partur af ferðaþjónustunni — ónýttir. (Forseti hringir.) Það er óhjákvæmilegt að til að ná alvöruviðspyrnu þá þurfum við að koma ferðaþjónustunni af stað.