151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[17:58]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans fyrir nefndarálitinu. Ég get um mjög margt tekið undir þau orð sem hann flutti úr ræðustól um sýn sína á þróun efnahagsmála og til hvaða aðgerða þyrfti að grípa í náinni framtíð. Margt af því er akkúrat verkefnið sem við höfum rætt svo ítarlega í hv. fjárlaganefnd á undanförnum vikum og blasir ekki síður við okkur þegar við erum komin á þennan stað í faraldrinum. Og nú segi ég: Loksins og vonandi er að birta til.

Í fyrra andsvari mínu við hv. þingmann langar mig aðeins að veita andsvar án þess að því fylgi bein spurning. Við getum að sjálfsögðu verið sammála um að áætlanagerð og greiningar séu mjög erfiðar á tímum sem slík óvissa ríkir. En hv. þingmaður kom í ræðu sinni inn á að ekki hefði fylgt árangursmat og að ekki hefði verið hægt að mæla með skýrum hætti árangur þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna faraldursins og þeirrar skyndikreppu sem við stöndum í. Þá held ég, hæstv. forseti, að ég geti á móti sagt að þær horfur sem við stóðum frammi fyrir fyrir rúmu ári, um samdrátt í landsframleiðslu, um þróun efnahagslífsins, um þróun á tekjustofnum ríkisins, hafa sem betur fer ekki gengið eftir, þ.e. spáð var um 10,4% samdrætti, niðurstaðan var rétt um 6%. Fyrir mér eru það mælikvarðar á árangur af þeim aðgerðum sem við höfum gripið til. Til viðbótar sýnir fyrsta mánaðaruppgjör ríkissjóðs betri útkomu fyrir ríkissjóð tekjumegin en við gerðum ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga í haust. Getur hv. þingmaður ekki að hluta til í það minnsta tekið undir að þetta sé einhvers konar árangursmæling?