151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég þykist vita og er þess fullviss að við höfum sama áhugamál hvað það varðar að einfalda þetta regluverk sem er ákaflega mikilvægt þegar kemur að t.d. húsbyggingum, að sækja um leyfi, skipulagsmál o.s.frv. Mörg þeirra mála snúa að sveitarfélögunum. Af því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um hvað væri hægt að laga get ég t.d. í örstuttu máli sagt að þarna eru ýmsir frestir sem ég held að mætti stytta, svo að dæmi sé tekið. Ég held að líka sé nauðsynlegt að eiga gott samtal við sveitarfélögin um þessi mál, að ríkisstjórnin taki hreinlega að sér að skipa starfshóp með sveitarfélögunum þar sem markmiðið væri að einfalda þennan málaflokk og gera fólki sem það vill kleift að byggja sín hús og heimili án þess að þurfa að ganga í gegnum ferli sem getur tekið eitt eða tvö ár. Fyrir utan það hafa þeir byggingarverktakar sem koma að þessu einnig kvartað yfir seinagangi í þessum leyfismálum öllum. Þetta er þjóðfélaginu kostnaðarsamt. Ég get nefnt sem dæmi að ég sótti um það hjá sveitarfélagi mínu að byggja tiltekna byggingu fyrir nokkrum árum. Það tók mig 17 mánuði að fá byggingarleyfi, 17 mánuði. Það var mér kostnaðarsamt vegna þess að það skipti mig máli að ég hefði getað klárað þá byggingu fyrr. Það eru mörg dæmi um þetta. Þetta er bara allt of langur tími. Ég held að menn séu að festa sig í alls konar smáatriðum sem skipta ekki máli. Svo er þetta kannski líka spurning um menntun, (Forseti hringir.) að þeir sem koma að þessum málum, þeir sem sitja í byggingarnefndum sveitarfélaganna o.s.frv., (Forseti hringir.) séu vel upplýstir um mikilvægi þess að málin gangi tiltölulega eðlilega og hratt fyrir sig (Forseti hringir.) vegna þess að það felur í sér kostnað að tefja þau o.s.frv. Þetta er umræða sem er svo sannarlega vert að taka hér og ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta atriði.