151. löggjafarþing — 101. fundur,  26. maí 2021.

fjármálaáætlun 2022--2026.

627. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir framsögu hennar og prýðisræðu, hún fór með framsögu fyrir 4. minni hluta fjárlaganefndar og er annar varaformaður fjárlaganefndar og ég vil þakka hv. þingmanni samvinnuna í nefndinni. Hv. þingmaður rakti ágætlega í upphafi ræðu fjárlagavinnuna, fjárlagaferlið og hvernig reynt hefur á lög um opinber fjármál og það hefur svo sannarlega gert það. Ég staldraði við ýmislegt í ræðu hv. þingmanns. Það er jú eitt af heimsmarkmiðunum að útrýma fátækt og ég get alveg staðfest það að hv. þingmaður og hennar flokkur hefur verið ötull talsmaður hér á þingi fyrir úrbótum í mörgum af þessum málum sem snúa að velferðarkerfinu, standa vörð um heilbrigðiskerfið og tryggingakerfið eins og hv. þingmaður fór yfir.

Framlög hafa verið stóraukin þetta kjörtímabil. Þetta er viðvarandi verkefni og verður einhvern veginn ekki allt leyst með auknum framlögum. Hv. þingmaður svaraði kannski spurningu minni í lok ræðu sinnar þar sem hún kom inn á skipulag og forvarnir og ræddi mikið um börnin okkar. Ég ætlaði bara að draga það fram í ræðu að fyrir velferðarnefnd liggja frumvörp sem eru að koma inn í 2. umr., hygg ég, um farsæld í þágu barna þar sem er samþætting á þjónustu, akkúrat það sem hv. þingmaður var að ræða. Við eigum ekki láta börnin bíða og við þurfum að hjálpa þeim í gegnum kerfið en stigskipt eftir því hvaða þjónustu er um að ræða; grunnþjónustu, sértækari þjónustu eða jafnvel úrræði við mjög flóknum og erfiðum vanda. (Forseti hringir.) Það er sannarlega jákvæð tilraun í því að leysa þessi mörg af þeim málum sem hv. þingmaður fór yfir.